Viðskipti með hlutabréf í Össuri eru um þriðjungur allrar hlutabréfaveltu það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. Hlutfall Össurar af heildarveltu er um 32%.

Félagið tilkynnti í vikunni að það hefur óskað eftir afskráningu úr íslensku kauphöllinni, en félagið er tvískráð hér og í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Af markaðsvirði eru hlutabréf í Össuri um 37% af heild og því er ljóst að stórt skarð myndast við brotthvarf Össurar úr kauphöll hérlendis.

Félagið hefur verið skráð í kauphöllinni frá árinu 1999 og í þeirri dönsku frá því 2009. Um 64% hlutabréfa félagsins eru nú til viðskipta á danska markaðinum.