Slétt 30% íbúðareigenda í Reykjavík og á Akureyri segja frekar líklegt eða mjög líklegt að þeir nýti sér ný íbúðalán bankanna til þess að endurfjármagna eldri lán. Hins vegar segja 51% að það sé frekar ólíklegt eða mjög ólíklegt. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið á miðvikudagskvöld.

Þeir sem sögðust eiga fasteign voru spurðir: "Hversu líklegt eða ólíklegt þykir þér að þú munir nýta þér tilboð bankanna um endurfjármögnun eldri skulda með nýju íbúðaláni?" Af þeim sem afstöðu tóku sögðu 11,1% það mjög líklegt, 18,9% frekar líklegt, 19,1% hvorki né, 28,4% frekar ólíklegt og 22,5% mjög ólíklegt.

Hlutfall þeirra sem svöruðu "mjög líklegt" hækkar nokkuð með auknum
heimilistekjum en að öðru leyti virðist ekki skýr fylgni við tekjur. Ungt
fólk er samkvæmt könnuninni mun líklegra til þess að nýta sér tilboðið en
eldra fólk. Um 37-38% fólks á aldrinum 24-40 ára segir mjög eða frekar
líklegt að það endurfjármagni lán sín.

Þeir sem ekki eiga fasteign voru spurðir: "Hversu líklegt eða ólíklegt þykir
þér að þú munir nýta þér tilboð bankanna um lán til kaupa á fasteign í
framtíðinni frekar en lán frá Íbúðalánasjóði?" Af þeim tóku afstöðu sögðu
21,7% það mjög líklegt, 27,5% frekar líklegt, 21,7% hvorki né, 8,7% frekar
ólíklegt og 15,9% mjög ólíklegt.

Könnunin var gerð símleiðis. Úrtakið var lagskipt slembiúrtak fólks á
aldrinum 24-67 ára í Reykjavík og á Akureyri. Svarendur voru 648.
PSN-samskipti ehf. framkvæmdi könnunina en Force ehf. annaðist úrvinnslu
gagna.