Um sex þúsund námsmenn hafa skilað inn umsókn um nemakort Strætó, og fjögur þúsund til viðbótar hafa hafið umsóknarferli á netinu. Þessi hópur er um þriðjungur þeirra sem sækja framhaldsskóla- eða háskólanám á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strætó bs.

Nú er annað árið í röð sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu niðurgreiða strætóferðir námsmanna. Þau sveitarfélög sem taka þátt í verkefninu eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes. Garðabær er ekki með í verkefninu að þessu sinn.

„Með verkefninu auka sveitarfélögin nýtingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem dregur úr bílaumferð og útblæstri um leið og nemendum á framhalds- og háskólastigi er gefinn betri kostur á að minnka notkun einkabíla og lækka þar með verulega ferðakostnað sinn á meðan á námi stendur,“ segir í fréttatilkynningunni.