Frosti Ólafsson tók við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands síðasta sumar. Hann verður 32 ára á árinu, en þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur hefur hann fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Frosti starfaði um tíma við gjaldeyris- og afleiðumiðlun hjá Landsbankanum, þá var hann hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs fyrir nokkrum árum og starfaði í um tvö ár hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey& Company í Danmörku.

Frosti er menntaður hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBApróf frá London Business School. Viðskiptaráð var stofnað árið 1917 og alla tíð síðan hefur tilgangur þess verið sá sami, að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífs, óháð atvinnugreinum eða stærð fyrirtækja, og að efla frjálsa verslun og framtak. Frosti segir að kjarnahlutverk ráðsins sé að vinna að bættum skilyrðum til atvinnurekstrar og verðmætasköpunar á Íslandi.

„Sérstaða Viðskiptaráðs hefur verið fólgin í ríkri áherslu á stóru verkefnin og heildarstefnu í efnahagsmálum,“ segir Frosti. „Með því á ég til að mynda við fyrirkomulag peningamála, rekstur hins opinbera, regluverkið, skattamál, samkeppnismál, opnun markaða og þann ramma sem auðlindageirann starfar eftir. Þess fyrir utan sinnum við auðvitað almennri hagsmunagæslu fyrir okkar aðildarfélaga og í þeim efnum getum við fengið inn á borð til okkar ýmis sértækari viðfangsefni. Meginhluti af okkar tíma og orku fer þó í þau mál sem varða atvinnulífið í heild.“

„Önnur sérstaða ráðsins felst í hlutverki þess sem bakhjarl menntunar. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég er hvað stoltastur af í starfi Viðskiptaráðs. Við höfum komið að rekstri Verslunarskólans frá byrjun þriðja áratugar síðustu aldar og Viðskiptaráð kom einnig að stofnun Háskólans í Reykjavík og er meirihlutaeigandi Háskólans í Reykjavík. Við höfum sinnt uppbyggingu HR með mjög virkum hætti sem hefur skilað sér ríkulega til atvinnulífsins og samfélagsins í heild. Skólinn útskrifar í dag fleiri tækni- og verkfræðimenntaða nemendur en nokkur annar háskóli og aukin samkeppni hefur skilað betri gæðum náms þvert á háskólastigið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .