Fleiri og ítarlegri ákvæði og ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja en var í fyrri leiðbeiningum er að finna í endurskoðuðum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem kynntar voru í dag. Leiðbeiningarnar eru gefnar út í samvinnu Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar. Þetta er þriðja útgáfa leiðbeininganna og í henni er sérstaklega horft til sambærilegra leiðbeininga frá öðrum löndum og forskriftar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu.

Meðal breytinga er að endurskoðuðu leiðbeiningunum er ekki einungis beint að skráðum félögum heldur að öllum félögum sem teljast tengjast almannahagsmunum.

Í tilkynningu um leiðbeiningarnar er haft eftir Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallarinnar, að þörf sé á að bæta stjórnarhætti í íslensku viðskiptalífi. „Markmið nýrra leiðbeininga er að  stuðla að þessu markmiði. Í þessu felst meðal annars að  bæta stjórnarhætti og viðskiptasiðferði, hvetja til aukinnar upplýsingagjafar til viðskiptalífsins og opnari og öflugari samskipta á milli fyrirtækis, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila. Leiðbeiningunum er þannig ætlað að vera þáttur í uppbyggingu trausts og gegnsæis í íslensku viðskiptalífi. Við köllum eftir víðtæku samstarfi við fyrirtæki, fjárfesta, fjölmiðla, menntastofnanir og rannsóknaraðila um fylgni við leiðbeiningarnar, en virk þátttaka allra  leggur grunninn að betri stjórnarháttum.“