Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vill láta skoða hvort gera þurfi „enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja.“

Þetta kom fram á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem fjallað var um undirbúning að frumvarpi um „ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi.“

Til skoðunar sé að gera „ríkari kröfur til slíkra fyrirtækja um upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti.“

Jafnframt segir að ráðast þurfi í endurskoðun á reglum um hámarksaflahlutdeild svo þær verði skýrar. Þetta verði gert í ljósi þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá því í janúar kemur fram að „ekki verði séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða.“

Þá hyggst Kristján Þór hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunun (FAO) „vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum.“

FAO vinni síðan, á grundvelli úttektarinnar, tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir.

„Á vettvangi stofnunarinnar hafa verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið fellur því vel að hlutverki stofnunarinnar,“ segir í frásögn forsætisráðuneytisins af fundi ríkisstjórnar í morgun.

Loks segir að utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun erlendis um Samherjamálið og hafi „undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis.“