Asískir milljónamæringar eru nú ríkari en bandarískir milljónamæringar. Ef taldir eru saman þeir sem eiga meira en milljón Bandaríkjadali þá hafa þeir frá Asíu nú yfir að ráða meiri auðlegð heldur en milljónamæringar frá Norður Ameríku.

Minnkandi auður

Á árinu 2015 jókst auður þeirra asísku um 9,9% meðan lítill vöxtur á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum og Kanada olli því að auður milljónamæringa þar óx einungis um 2,3%.

Á sama tíma töpuðu milljónamæringar í rómönsku Ameríku um 3,7% af sínum auð vegna stjórnmálaóstöðugleika og sviptinga á hlutabréfamörkuðum í Brasilíu. Í Evrópu jókst auður þeirra um 4,8% og voru þar fremstir Spánverjar og Hollendingar.

Ekki bara ríkari heldur líka fleiri

Asía fór jafnfamt framúr Norður Ameríku varðandi fjölda milljónamæringa árið 2014 og jókst fjöldi þeirra enn meira á síðasta ári, eða um 9,4%.

Af um 5,1 milljón asískra milljónamæringa á árinu 2015 komu um 2,7 milljón þeirra frá Japan og 1 milljón frá Kína. Á sama tíma eru fjöldi milljónamæringa í Bandaríkjunum um 4,5 milljónir. Vöxturinn var mestur í Kína, þar sem hann var 16,2% en hann kemur að mestu til vegna frumkvöðlastarfsemi. Kemur þetta fram í skýrslu frá ráðgjafafyrirtækinu Capgemini.