Sean Quinn, sem fyrir fáeinum árum var talinn ríkasti maður Írlands, fór í gær fram á gjaldþrotaskipti fyrir rétti í Belfast á Norður Írlandi. Þetta kom fram í fréttum RÚV.

Eignir Quinn voru á sínum tíma taldar nema á yfir fjórum miljörðum evra, yfir sex hundruð og þrjátíu milljörðum króna. Í greinargerð til réttarins sagði Quinn eigur sínar nú vera innan við fimmtíu þúsund evrur eða átta miljónir króna, hann hefði engar tekjur og ætti engar fasteignir. Taki hann út eftirlaun verði þau innan við ein og hálf miljón króna á ári.

Quinn átti áður fjölda fyrirtækja, meðal annars stórt tryggingafélag. Hann gerðist svo stórtækur lántaki í Anglo Irish bankanum og fjárfesti í bankanum skömmu áður en hann hrundi. Sjóðurinn sem tók bankann yfir telur Quinn skulda sér næstum þrjá miljarða evra.