Viktor Vekselberg verður ríkasti maður Rússlands með kaupum rússneska ríkisolíufyrirtækisins Rosneft á helmingshlut í olíufélaginu TNK-BP. Auður hans er með kaupunum metinn á 18 milljarða dala, jafnvirði tæpra 2.250 milljarða íslenskra króna. Til að draga upp mynd af veldi Vekselbergs þá var verg landsframleiðsla Íslands 1.630 milljarðar króna í fyrra. Rosneft greiðir 26,8 milljarða fyrir hlut BP í olíufyrirtækinu. Rosneft hefur sömuleiðis tryggt sér kaup á hlut Vekselbergs og fleiri rússneskra fjárfesta.

Vekselberg er fæddur í Úkraínu árið 1956 og fagnaði 56 ára afmæli í vor. Hann nam verkfræði í Moskvuborg og vann hjá ýmsum ríkisfyrirtækjum í Ráðstjórnarríkjunum. Hann stofnaði fjárfestingarfélagið Renova þegar stjórnvöld í Rússlandi einkavæddu fjölda ríkisfyrirtækja árið 1993.  Vekselberg eignaðist ráðandi hlut í olíufélaginu Tuymen Oil, sem varð að öðrum helmingi TNK-BP árið 2003.

Vekselberg á 50% hlut í TNK-BP ásamt öðrum rússneskum fjárfestum, sem um árabil hafa kallast olígarkar þar sem auðlegð þeirra byggist á kaupum á rússneskum ríkisfyrirtækjum. Fjárfestahópurinn gengur undir nafninu Alfa-Access-Renova, stytt AAR. Auk Vekselbergs eru í hópnum Mikhaíl Fridman, German Khan, Aleksey Kuzmísjev og Len Blavatnik, auðugust menn Rússlands.

Samkvæmt umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um Vekselberg átti hann auð upp á 16,5 milljarða dala og bætast 1,5 milljarðar við sjóðinn með kaupum Rosneft á hlut hans í TNK-BP. Hann, Fridman og Blavatnik flokkast nú til auðugustu manna heims og eru þeir orðnir ríkari en landi þeirra Roman Abramovich, eigandi breska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, og ríkari en bandaríski Íslandsvinurinn Paul Allen, annar stofnenda bandaríska tölvurisans Microsoft.