Li Ka-shing, sem er talinn vera ríkasti maður Asíu hefur tilkynnt að hann hyggist gefa þriðjung auðæfa sinna til góðgerðamála, eigur hans eru metnar á yfir 1,3 billjónir króna, segir í frétt Financial Times.

Eftir 217 milljarða krónu uppgjör tveggja stærstu fyrirtækja hans, Cheung Kong Holdings og Hutchinson Whampoa, tilkynnti hann að hann hygðist láta ekki minna en þriðjung eigna sinna renna í góðgerðasjóð sem er nefndur eftir honum sjálfum, segir í fréttinni.

Bandarísku auðmennirnir Bill Gates og Warren Buffett létu stóran hluta auðæfa sinna renna til góðgerða fyrir skömmu. Buffet, forstjóri Berskhire Hathaway, gaf 85% eigna sinna til góðgerðarsjóðs Bill Gates í júní síðastliðnum, en eigur hans voru metnar á 44 milljarða bandaríkjadala (yfir 3 billjónir króna).

Ka-shing er í tíunda sæti á lista Forbes tímaritsins yfir ríkustu menn heims.