Zhang Yin, sem skapaði auð sinn í með endurvinnslufyrirtæki sínu, er fyrst kvenna sem skipar efsta sæti á lista yfir ríkustu einstaklinga í Kína, samkvæmt Hurun Report. Eignir hennar er metnar á yfir 230 milljarða króna, en hún var í 36. sæti á listanum á síðasta ári, segir í frétt Financial Times.

Yin komst á toppinn þegar fyrirtæki hennar, Nine Dragons Paper, var skráð á kauphöllina í Hong Kong í mars síðastliðnum, en sjö af tíu ríkustu einstaklingum Kína eiga fyrirtæki sem skráð hafa verið í kauphöllina í Hong Kong. Fyrirtæki Yin kaupir pappírsúrgang frá Bandaríkjunum, sem er endurunninn og seldur í Kína.

Stofnandi raftækjaverslananna Gnome, Huang Guangyu, er í öðru sæti, en eignir hans eru metnar á 172 milljarða króna. Larry Yung, forstjóri Citic Pacific var í sjötta sæti á listanum með 123 milljarða króna, en hann var í efsta sæti á lista Forbes tímaritsins á síðasta ári. Yung er þó í efsta sæti Hurun yfir valdamestu menn í kínversku viðskiptalífi.

Þeim Kínverjum sem eiga meira en einn milljarð Bandaríkjadala fer nú fjölgandi og eru þeir nú fimmtán. Hlutur kvenna á listanum er sífellt að aukast og eru nú 6% af 500 ríkustu aðilum Kína konur. Réttmæti lista af þessu tagi í Kína hefur þó verið dregið í efa, þar sem auðmenn þar í landi eru taldir svíkja undan skatti í stórum stíl, segir í fréttinni.