Bandarísk stjórnvöld hyggjast taka yfir fjárfestingalánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac á næstunni. Frá þessu er greint í föstudagsblöðum New York Times og Washington Post.

Sjóðirnir eiga eða tryggja tæplega helming 12 billjarða dala húsnæðslánasafn Bandaríkjamanna. Samkvæmt frétt Wall Street Journal er bandaríska fjármálaráðuneytið að leggja lokahönd á áætlanir um endurskipulagningu fyrirtækjanna tveggja, og sú áætlun verður kynnt á næstunni, jafn vel strax um helgina.

Stjórnendum skipt út

Fulltrúar bandaríska seðlabankans funduðu með stjórnendum Fannie Mae og Freddie Mac og greindu þeim frá því að stjórnvöld hyggðust taka yfir stjórn sjóðanna.

Stjórnarmönnum verður skipt út og verðmæti hlutabréfa sjóðanna mun minnka mikið. Fannie Mae og Freddie Mac munu hins vegar getað starfað áfram, þar sem ríkið mun standa á bak við skuldir sjóðanna.

Neyðaráætlun sem var samþykkt af bandaríska þinginu í júlí gaf fjármálaráðuneytinu leyfi til að verða Fannie Mae og Freddie Mac úti um fjármagn eða kaupa bréf sjóðanna ef þeir myndu lenda í meiri vandræðum.

Hlutabréf Fannie og Freddie hafa lækkað um 80% síðan um miðjan maí á þessu ári og á undanförnum fjórum ársfjórðungum hafa sjóðirnir skilað 14 milljarða dala tapi.