Ríkisstjórin hefur í hyggju að lækka þann fasteignaskatt sem ríkið greiðir sveitarfélögunum af opinberu húsnæði úr 1,32% í 0,88% af fasteignamati. Tillaga er gerð um þessa breytingu í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Nokkrir sveitarstjórnarmenn hafa látið málið til sín taka og mótmælt áformunum, sem þeir segja að brjóti gegn samstarfssáttmála sem ríki og sveitarfélög undirrituðu síðastliðið vor. Byggðaráð Dalabyggðar samþykkti ályktun þessa efnis á síðsta fundi sínum og lýsir undrun og vonbritðum með þessi áform sem séu einhliða ákvörðun ríkisins, þrátt fyrir samstarfssáttmálann frá 2. apríl, sem átti að tryggja að einhliða ákvarðanir heyrðu sögunni til.

"Dalabyggð skorar á þingmenn að samþykkja ekki framkomnar tillögur um lækkun fasteignaskatts á húsnæði í eigu ríkisins," segir í ályktuninni. "Skerðing tekjustofna sveitarfélaganna er vanhugsuð aðferð til sparnaðar enda eru sveitarfélögin hornsteinn þjónustu við íbúana. Við núverandi aðstæður ætti þvert á móti að efla tekjustofna sveitarfélaganna þar sem þau eru ein mikilvægasta stoðin við uppbygginguna sem framundan er."