Það vakti nokkra athygli fyrir jólin að Fríhafnarverslunin, sem er alfarið í eigu ríkisins og selur vörur án virðisaukaskatts, vörugjalda og annarra gjalda, skyldi auglýsa ódýrari vörur til jólagjafa en einkareknar verslanir sem þurfa að standa skil á öllum sköttum og skyldum. Um var að ræða svokallað iPod tónlistarspilara sem var mjög vinsæl til jólagjafa. "Mörgum þykir það vera æði ójafn leikur að smásöluverslun sem ríkið rekur í samkeppni við einkareknar verslanir í landinu skuli birta slíkar auglýsingar," segir í fréttapósti SVÞ.

Þar er einnig bent á að einnig hafi verslunareigendur í Reykjavík tjáð SVÞ að Fríhafnarverslunin hafi útsendara á sínum snærum til að kanna verðlag í einkareknum verslunum til að bera saman verðlag til að tryggja að Fríhöfnin bjóði aðeins lægra verð. Þetta er einkennilegt í ljósi þess að talsmenn Fríhafnarverslunarinnar segja opinberlega að þeir séu ekki í samkeppni við innlenda verslun heldur verslun í flugstöðvum í öðrum löndum.