Í fréttapósti SVÞ segir að það veki athygli að enn skuli Fríhöfnin, sem ríkið rekur, auglýsa útsölu á vörum sem er í beinni samkeppni við einkarekna verslun í landinu. "Nú síðast var auglýstur afsláttur á snyrtivörum í Fríhöfninni. Þetta er ójafn leikur þar sem ríkið leggur ekki á virðisaukaskatt, vörugjöld eða önnur gjöld sem einkarekin verslun, sem selur nákvæmlega sömu vörur, þarf að standa straum af og leggja ofan á verð vörunnar," segir í fréttapóstinum.

SVÞ bentu síðast á þessa vafasömu viðskiptahætti fyrir jólin þegar Fríhöfnin auglýsti til jólagjafa ódýrara iPod vasa-tónlistaspilara. "Það breytir engu þó rekstrarfyrirkomulagi flugstöðvarinnar hafi verið skipt í tvö svið sem annars vegar rekur fasteignina og hin sem sér um verslunarreksturinn. Ríkið er eftir sem áður eigandi að hvoru tveggja og samkeppnin við einkarekna sú sama," segir í fréttapóstinum.