Ríkið hefur verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða fyrirtækinu Stjörnugrís 27 milljónir króna vegna ólögmætra stjórnvaldsaðgerða af hálfu umhverfisráðuneytisins.

Tildrög málsins eru þaug að umhverfisráðuneytið neitaði að afgreiða starfsleyfi vegna uppbyggingu svínabús á vegum Stjörnugrís í Borgarfirði.

Niðurstaða dómsins grundvallast á því að um hafi verið að ræða ólögmætar stjórnvalds­ákvarðanir af hálfu umhverfisráðuneytis (umhverfisráðherra) þar sem annars vegar var ákvörðun 30. ágúst 1999 og hins vegar úrskurður 5. desember s.á. og að með því hafi stofnast skaðabótaábyrgð stefnda gagnvart stefnanda.

Í dómnum segir að það verði að telja réttmætt að Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneyti veittu heilbrigðisnefnd Vestur­lands álitsgjöf um úrlausnarefni á sviði lagaskilaréttar vegna gildistöku nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Ekki verður fallist á það með stefnda að óeðlilegt hafi verið eða leitt til óþarfrar tafar að stefnandi kaus að leita með kæru 3. október 2000 úrlausnar æðra stjórnvalds á ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 13. september s.á. í stað þess að höfða þegar dómsmál.

Í niðurstöðu dómsins segir að við ákvörðun tjónsins verði mat hinna dómkvöddu matsmanna lagt til grund­vallar með veigamikilli undantekningu sem leiðir af því að upphafsdagurinn 1. febrúar 2000 og þar með lengd þess tímabils, sem tjónsútreikningurinn tekur til, fær ekki staðist. Athugasemdir eigenda nágrannajarðar við tillögu að deiliskipulagi fyrir jörðina Mela leiddu til þess að stefnandi lagði upphafleg byggingaráform til hliðar og takmarkaði þau um sinn við fyrri áfangann sem ekki hefur sætt ágreiningi á neinu stigi málsmeðferðar. Það ferli hófst með umsókn um byggingarleyfi 26. júlí 1999 sem var veitt 26. ágúst s.á. Um starfsleyfi var sótt 7. ágúst 1999 og var það veitt 22. desember s.á. Byggingum fyrri áfanga var síðan lokið í júlí 2000. Þessu til viðbótar er til þess að líta að upphaflegur verksamningur stefnanda og Loftorku Borgarnesi ehf. kvað á um að byggingarframkvæmdum yrði að fullu lokið 15. apríl 2000. Að því gefnu að ekki hefði komið til ákvörðunar umhverfisráðherra 30. ágúst 1999 og að stefnanda hefði verið unnt að hefjast handa við aðgerðir vegna síðari áfangann í september s.á. er það mat dómsins, samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með hliðsjón af gögnum málsins sem varða verkframvindu, að miða skuli við upphafstímann 1. nóvember 2000.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða dómsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 27.000.000 króna með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 2.000.000 króna að teknu tilliti til matskostnaðar sem nam 1.035.840 krónum.

Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari sem dómsformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Stefán D. Franklín löggiltur endurskoðandi.