„Ég velti fyrir mér hvort við höfum kastað barninu út með baðvatninu, hvort við höfum þegar við gerðum áskrifendur að þeirri hugmynd sem nú er viðurkennd, að stofnanir og fagfólk geti að verulegu leyti komið í stað mæðra og feðra í því grundvallarverkefni hvers samfélags að koma börnum til manns“ sagði Margrét S. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar- og samskiptasviðs Háskóla Íslands á ráðstefnunni „Konur og réttlæti“ í dag.

Margrét benti í máli sínu á að þrátt fyrir að atvinnuþátttaka íslenskra kvenna sé með því mesta sem finnst í heiminum þá eignist íslenskar konur fleiri börn en konur flestra annarra þjóða. „Því velti ég því fyrir mér hvort mín kynslóð hefði með stofnanavæðingu uppeldisins gert mistök sem bitna á börnunum. Hvort að í stað þess að byltingin éti börnin sín éti hún börnin okkar,“ sagði Margrét.

Í máli Margrétar kom fram að í ljósi þess að tilkynningum til barnaverndarnefnda um vanrækslu barna eða áhættuhegðun þeirra hefur fjölgað um helming á árunum 2004-2007, aðsókn á barnageðdeildir hefur aukist mikið undanfarin ár og að íslensk börn verða að meðaltali æ feitari megi spyrja að því hvort Íslendingar hafi tíma til að rækja foreldrahlutverkið?

„Oftast er brugðist við þessum vandamálum með því að kalla „kerfið“ til bjargar. Enginn virðist þora, en það ætla ég þó að gera hér, að kalla okkur til ábyrgðar. Mæður og feður þessa lands eru lykilatriði í uppeldi og velferð barna okkar“ sagði Margrét.

„Ríkið elskar engan og við verðum ekki hamingjusamar ef börnum okkar vegnar illa.“

Stöðu stjúpforeldra ábótavant

Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður fjallaði í ræðu sinni um stöðu stjúpforeldra á Íslandi. Hildur benti á að fyrstu kynni margra af stjúpforeldrum verði í gegn um Öskubusku og Mjallhvíti, þar sem stjúpur eru afar illa innrættar. Vegna þessa hafi orðið hlotið neikvæða merkingu.

Hildur velti fyrir sér hvort það viðhorf hafi smitast inn í löggjöf. Sem dæmi nefndi hún að deyji foreldri barns eigi hitt foreldri barnsins rétt til forræðis, fram yfir stjúpforeldra þess sem oft á tíðum er e.t.v. mun tengdari barninu. Sömu sögu sé að segja af lögræðislögum, þar sem börn geti átt aðild að máli sem varðar sviptingu sjálfræðis, t.d. vegna alvarlegra geðsjúkdóma, en ekki stjúpbörn þess veika. Að sama skapi ættu stjúpbörn minni erfðarétt en önnur börn.

Hildur kallaði að lokum eftir því að staða stjúpforeldra verði bætt.