Fjármálaráðuneytið hefur beint þeim tilmælum til þeirra olíufélaga sem selja flugfélögum hér á landi eldsneyti ætlað til utanlandsflugs að innheimta ekki svokallað kolefnisgjald sem fjallað er um í nýsamþykktum lögum um umhverfis- og auðlindaskatta.

Samkvæmt lögunum skal greiða kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti, m.a. 2,7 krónur á hvern lítra af flugvéla- og þotueldsneyti.

Komu fyrrnefnd tilmæli til eftir að Alþjóðasamtök flugrekenda, IATA, settu ofan í við ráðuneytið og sögðu nýja skatta brjóta gegn alþjóðasamningum sem snúa að flugsamgöngum.

Viðskiptablaðið hefur undir höndum gögn sem send  voru íslenskum stjórnvöldum frá IATA þar sem vísað er í fjölmarga alþjóðasamninga sem kolefnisgjaldið á að brjóta gegn. Af því tilefni hefur ríkið bakkað með ákvörðun sína, en aðeins á þau flugfélög sem fljúga á milli landa. Þannig þarf Flugfélag Íslands t.a.m. enn að greiða hið nýja kolefnisgjald.

Þá vekur athygli að ekki hefur verið lagt til frumvarp um að breyta lögum nr. 129/2009 um umhverfis- og auðlindaskatta. Aðeins hefur þeim tilmælum verið beint til þeirra olíufélaga sem selja flugvélaeldsneyti að innheimta ekki kolefnisgjaldið.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .