Með kaupum ríkisins á 75% hlut í Glitni er ríkið á ný orðið stór eigandi að íbúðabyggðinni í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli sem það seldi Háskólavöllum ehf. árið 2007.

Einnig er ríkið væntanlega orðið þátttakandi í orkuútrás í gegnum Geysi Green Energy.

Háskólavellir eru í eigu fimm félaga og fyrirtækja, þ.e. Glitnis, Sparisjóðs Keflavíkur (SPKef ), fjárfestingarfélagsins Teigs, Fasteignafélagsins Þreks og svo Klasa sem er fasteignafélag sem frægt var í umræðunni vegna tengsla við bróður fjármálaráðherra.

Glitnir, Klasi, og SPKef eiga allir 22,5% í Háskólavöllum en Teigur á 10%. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar seldi á sínum tíma eignarhaldsfélaginu Háskólavöllum 96 byggingar fyrir 14 milljarða króna. Þetta voru að mestu íbúðabyggingar á gamla varnarliðssvæðinu með samtals 1.670 íbúðum.

Ríkið í orkuútrás?

Annar angi af þessum athyglisverðu kaupum ríkisins á Glitni er að ríkið er einnig orðið stórþátttakandi í orku- og útrásarfyrirtækinu Geysi Green Energy.

Þar er Atorka reyndar stærst með 43,8% hlut, en þar á eftir kemur Glacier Renewable Energy Fund með 42,4% hlut sem stjórnað er af Glitni.

Síðan er VGK Invest (Mannvit) með 10,8% hlut, en aðrir eiga 3% samkvæmt upplýsingum af heimasíðu fyrirtækisins.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .