Fjármálaráðuneytið hvatti eigendur VBS fjárfestingabanka til þess að afskrifa eignarhluti sína í bankanum á svipuðum tíma og ráðuneytið veitti bankanum 26,4 milljarða króna lán til að gera honum kleift að starfa áfram.

VBS var tekin til slitameðferðar í liðinni viku. Allir sjóðir bankans voru þá tómir og hann gat ekki greitt starfsmönnum sínum laun fyrir marsmánuð.

Tekjufærðu lán til að eigið fé yrði jákvætt

Íslenska ríkið lánaði VBS 26,4 milljarða króna í mars 2009. Þetta var gert svo að ríkið gæti haldið svokölluðum veðlánakröfum á bankann lifandi, en þær hafði ríkissjóður keypt af Seðlabanka Íslands til að forða honum frá gjaldþroti. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið 29. mars 2009 að tilgangurinn með lánveitingunni væri að gera fyrirtækinu „kleift að ráða við þetta, og hins vegar er vferið að reyna að tryggja að ríkið geti endurheimt þessa fjármuni“.

VBS færði síðan 9,4 milljarða króna af láninu sem tekjur í ársreikningi sínum fyrir árið 2008, sem bankinn skilaði skömmu síðar. Eigið fé bankans, að tekjufærslunni meðtalinni, var 8,9 milljarðar króna. Því hefði eiginfjárstaða VBS verið neikvæð ef allt ríkislánið hefði verið fært sem skuld.

Sparisjóðir látnir afskrifa eign sína í VBS að kröfu ríkisins

Tveir af þremur stærstu eigendum VBS eru Sparisjóðurinn í Keflavík (SpKef) og Byr. Saman eiga þeir um fjórðungshlut. Fjármálaráðuneytið vann að því allt síðasta ár að endurskipuleggja sparisjóðakerfi landsins þar sem SpKef og Byr eiga að mynda hryggjastykki. Sú endurskipulagning miðar við að íslenska ríkið leggi sjóðunum tveim til á annan tug milljarða króna svo þeir geti starfað áfram. Eitt af skilyrðunum fyrir því að ríkið legði fé inn í sjóðina var að þeir afskrifuðu eignir sínar í takt við raunveruleikann.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að bæði SpKef og Byr hafi í þeirri vinnu, sem fór að mestu fram í fyrra, afskrifað eignarhlut sinn í VBS að fullu. Fjármálaráðuneytið hvatti því sparisjóði til að afskrifa eignarhlut sinn í VBS með annarri hendinni en lánaði bankanum tugi milljarða króna með hinni til að hann geti starfað áfram.