Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að með samningum skilanefndar við ríkisvaldið hafi skilanefndin, fyrir hönd kröfuhafa, öðlast rétt til að eignast Íslandsbanka að öllu leyti án þess að leggja til frekari fjármuni. Ríkið hafi ennfremur skuldbundið sig til að veita bankanum 25 milljarða króna lausafjárstuðning. „Með þessu teljum við að bankinn sé að fullu fjármagnaður og að lausafé hans sé tryggt um fyrirsjáanlega framtíð,“ er haft eftir Árna í tilkynningu.

Kröfuhafar gætu ákveðið að eignast frekar kauprétti

Þar er ennfremur haft eftir honum að verði það niðurstaða kröfuhafa eftir að áreiðanleikakönnun hafi farið fram, að í stað þess að eignast Íslandsbanka að fullu strax,  þá telji þeir sig betur setta að eignast skuldabréf og kauprétt að allt að 90% af hlutafé bankans á næstu fimm árum, þá sé sá valkostur einnig fyrir hendi. Tekin verði ákvörðun um þetta með hag lánadrottna að leiðarljósi fyrir 30. september næst komandi.

Árni segir að með þessu samkomulagi hafi kröfuhöfum í senn verið tryggð hámarksréttindi og valkostur sem þeir geti tekið afstöðu til að lokinni áreiðanleikakönnun sem fram fari á næstu vikum.