Hagspár greiningardeilda bankanna, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands eru ekki samhljóða frekar en búast mátti við, enda er efnahagslífið gríðarlega flókið og breyturnar nánast óteljandi sem taka þarf tillit til. Að meðaltali gera spámenn ráð fyrir 3,4% hagvexti á næsta ári og 2,9% á árinu 2009 og 2% verðbólgu bæði árin. Áberandi er hve spámenn hins opinbera eru svartsýnari á hagvöxt en spámenn bankanna.

Það er ef til vill til marks um umfang verkefnisins og hversu mikilli óvissu það er háð að spá fyrir um þróun efnahagsmála, að töluverðu munar á spám um hagvöxt á þessu ári, sem þó er langt liðið á. Greiningardeildir Glitnis og Kaupþings eru bjartsýnastar í þeim efnum og spá 2,6% hagvexti á árinu sem er að líða, en spámenn hins opinbera; fjármálaráðuneytis og Seðlabanka, eru öllu svartsýnni. Ráðuneytið spáir 0,7% hagvexti og Seðlabankinn 0,2%, en sem fyrr ber að hafa í huga að spá bankans er eldri en hinar. Svo sem gefur að skilja er breytileikinn í spánum meiri þegar fram dregur -- þannig spáir Landsbankinn 3,7% hagvexti á árinu 2008 og 4% 2009, en Seðlabankinn er sem fyrr svartsýnastur og spáir því að verg landsframleiðsla dragist saman árið 2009 og að vöxtur hennar verði aðeins tæpt prósent árið 2008.

Sjá úttekt Ívars Páll Jónssonar á miðopnu Viðskiptablaðsins í dag.