Gengislánafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra var samþykkt á Alþingi síðastliðinn laugardag og tók þegar gildi. Fjármálastofnanir hafa 90 daga til að gera upp lánin og færa yfir í íslenskar krónur eða breyta alfarið í erlend lán, óski lántaki þess.

Í umsögn skilanefndar Landsbanka Íslands (LBI) um frumvarpið áskilur skilanefndin sér rétt til að krefjast bóta úr hendi ríkisins verði LBI fyrir tjóni vegna lagasetningarinnar. Þá bendir skilanefndin á að samkvæmt samningi sem gerður var á milli hennar, (nýja) Landsbankans og fjármálaráðuneytisins ber Landsbankanum að greiða LBI bætur vegna tjóns sem hlýst af reglum sem ríkið setur og hafa áhrif á tiltekin eignasöfn.

Ráðherra í engum vafa um lögmæti

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að frumvarpið byggi á efnislegum rökum og löggjafinn hafi tekið ákvörðun út frá því. Aðspurður hvort umsögn skilanefndarinnar beri ekki með sér að ríkið sé nú mögulega skaðabótaskylt segist hann ekki vera í nokkrum vafa um að frumvarpið standist. „Því var markaður mjög þröngur rammi. Yfir fjörutíu manns fóru yfir málið á fundi efnahags- og skattanefndar og frumvarpið var beinlínis takmarkað í þeim tilgangi að það stæðist,“ segir Árni Páll.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .