Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að eiginfjárstaða Íbúðalánasjóðs verði efld með 33 milljarða króna framlagi í breytingatillögu við fjáraukalög fyrir árið 2010.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en þar segir að þannig ætti eiginfjárstaða sjóðsins að geta orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok í ár en til þess þarf sjóðurinn um 18 til 20 milljarða króna.

„Auk þess verður sjóðnum með þessu framlagi ríkissjóðs gert kleyft að mæta viðbótar afskriftum auk hugsanlegs kostnaðar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna en tillögur í þeim efnum eru væntanlegar á næstu dögum,“ segir í Morgunkorni.

Greining Íslandsbanka segir aðgerðir stjórnvalda komi ekki á óvart þar sem lengi hafi verið vitað að það þyrfti að endurfjármagna sjóðinn. Þess hafi m.a. verið getið í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna þriðju endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS sem birt var í haust.

„Ekki hefur komið fram með hvaða hætti ríkissjóður muni fjármagna þetta framlag en hann getur það t.d. með því að nýta sjóðseign sína í Seðlabankanum eða með því að leggja sjóðnum til ríkisskuldabréf,“ segir í Morgunkorni.

„Samkvæmt lögum um Íbúðalánasjóð skal sjóðurinn stefna að því að hafa 5% eiginfjárhlutfall til langs tíma. Sjóðnum er samt ekki beinlínis skylt að halda sig ofan þeirra marka. Sjóðurinn fjármagnar sig með útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa og gildir í raun hið sama um eiginfjárframlag ríkissjóðs. Það skiptir því kannski ekki höfuðmáli hvert eiginfjárhlutfall sjóðsins er á hverjum tíma svo lengi sem sjóðurinn getur staðið undir afborgunum af íbúðabréfum.“