Greiningardeild Íslandsbanka segir ríkiskassann njóta ?góðærisins í ríkum mæli líkt og ráða má af góðri greiðsluafkomu hans um þessar mundir, en tekjur hans hafa vaxið mikið að undanförnu."

?Þetta má lesa úr tölum um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins sem birtar voru í gær. Staða ríkissjóðs getur þó breyst hratt til hins verra ef dregur úr umsvifum í hagkerfinu, því óhægt er um vik að skera útgjöld niður þótt tekjur minnki, og raunar vaxa útgjaldaflokkar á borð við almannatryggingar á samdráttarskeiðum. Spyrja má hvers vegna afkoma ríkissjóðs sé ekki enn betri í núverandi árferði, og hvort verulegt svigrúm sé í raun til skattalækkana þótt afgangur sé af ríkisrekstrinum," segir greiningardeildin.

Innheimtar tekjur voru 15,5 milljörðum meiri en greidd gjöld á fyrstu átta mánuðum ársins, sem er viðsnúningur frá sama tíma 2004, þegar tekjujöfnuður var neikvæður um 8,3 milljarða. Lánsfjárjöfnuður var jákvæður um 27,6 milljarða og handbært fé ríkissjóðs hækkaði um 7,4 milljarða á tímabilinu, þegar afborganir lána, greiðslur til lífeyrissjóða og nýjar lántökur eru teknar með í myndina.

?Sé þróun tekna og gjalda á þessu tímabili borin saman kemur í ljós að innheimtar tekjur jukust um 21,1% milli ára en aukning greiddra gjalda var 7,6%. Þessi hraða tekjuaukning ríkissjóðs á sér rætur í öllum helstu tekjustofnum, en einna þyngst vegur þó 21% aukning í innheimtum virðisaukaskatti milli ára, sem jafngildir tæplega 13 milljörðum króna," segir greiningardeildin.

? Þá var gífurleg aukning í innheimtu vörugjalda af ökutækjum, eða 71,6%, sem er afleiðing af miklum vexti í bílainnflutningi milli ára. Nam aukningin í krónutölu tæpum þremur milljörðum. Þá jókst innheimtur tekjuskattur einstaklinga um fjóra milljarða króna, sem samsvarar rúmlega 10% hækkun milli ára, og tryggingagjöld hækkuðu um þrjá milljarða sem er 16,6% aukning frá fyrra ári. Innheimtur fjármagnstekjuskattur jókst um 3,5 milljarða milli ára, en einhverjar sveiflur kunna að vera í innheimtu hans innan hvers árs og því vafasamt að draga sterkar ályktanir fyrr en tölur yfir allt árið liggja fyrir."