„Nú er hugmyndin sú að ríki og borg muni standa við fyrri skuldbindingar sínar varðandi Tónlistarhúsið, en ekki verði farið út í skuldbindingar umfram það,” segir Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Júlíus segir að skuldbindingar ríkis og borgar vegna þessa samnings verði með framreikningum í dag um 808 milljónir króna á ári til 35 ára. Það gerir samtals tæplega 28,3 milljarða króna.

„Þá er hugsunin að tekið verði lán vegna byggingarinnar sjálfrar og við lok 35 ára samningstímabilsins verði húsið eign ríkis og borgar en ekki Portusar eins og fyrri samningur gerði ráð fyrir.”

Segir hann að sú vinna sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum hafi snúist um hvort hægt væri að halda byggingu hússins áfram án þess að ríki og borg þurfi að taka á sig meiri skuldbindingar en áður var búið að ákveða. Þær skuldbindingar miðast við 54% kostnaðarins komi frá ríkinu og 46% frá Reykjavíkurborg í gegnum sameiginlegt félag þessara aðila í Austurhöfn-TR.

Þessi upphæð átti þá að standa undir byggingu hússins og að einhverju leyti rekstrinum líka. Að loknum samningstíma átti Portus hf. að eignast húsið skuldlaust. Samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum mun ríki og borg hins vegar eignast húsið að fullu í lok samningstímans. Júlíus segir að jafnhliða þessari útfærslu séu samt stigin ákveði skref til að auðvelda öðrum aðilum að ganga inn í þessa samninga eða gera samninga við ríki og borg um kaup á húsinu.