Samkeppniseftirlitið gerir athugasemd við Reykjavíkurborg og ríkið sem hvoru tveggja takmarki samkeppni á eldsneytismarkaði, hvort á sinn hátt. Gagnrýnir eftirlitið Reykjavíkurborg sem þeir segja hindra samkeppni með því að sporna við fjölgun bensínstöðva.

Jafnframt gagnrýnir eftirlitið upplýsingamiðlun Flutningjöfnunarsjóðs sem olíufélögin geti nýtt til þess að áætla hlutdeild sína á eldsneytismarkaði, sem sé ótvírætt skaðlegt samkeppni. Auk þess gagnrýnir eftirlitið aðkomu fulltrúa olíufélaganna í stjórn sjóðsins.

Reykjavíkurborg endurskoði stefnu sína

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir mikilvægt að Reykjavíkurborg endurskoði stefnumörkun á skipulagi og lóðaúthlutunum til eldsneytisstöðva.

„Ein af grunnforsendum þess að virk samkeppni þrífist á eldsneytismarkaðnum er að opinberir aðilar tryggi að lög, reglur og aðgerðir þeirra takmarki ekki samkeppni,“ er haft eftir Páli í frétt Samkeppniseftirlitsins.

Vill eftirlitið jafnframt að umhverfis- og auðlindaráðherra breyti skipulagslögum þannig að kveðið verði skýrt á um að hafa skuli hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum við framkvæmd laganna.

Einnig beinir það því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipan í stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs verði óháð fyrirtækjunum sem starfa á eldsneytismarkaði sem og að sjóðurinn miðli ekki upplýsingum sem skaðað geti samkeppni.