Lánamál ríkisins hafa tilkynnt að ekki verður af útgáfu flokks tveggja ára ríkisbréfa á fyrri hluta ársins eins og gert var ráð fyrir í útgáfuáætlun ársins. Til stóð að gefa út og selja ríkisbréf fyrir 50 milljarða króna að nafnverði á þessu ári en sú upphæð hefur verið lækkuð í 30 milljarða króna. Áfram er þó gert ráð fyrir útgáfunni á þessu ári samkvæmt tilkynningu á vef Kauphallarinnar.

Í ársbyrjun tilkynntu Lánamál ríkisins um áætlaða útgáfu verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa á árinu 2010 fyrir um 170 milljarða króna ásamt því að auka útgáfu ríkisvíxla um 20 milljarða. Áætlun um útgáfu ríkisvíxla er óbreytt.  Á móti þessu verður útgáfa aukin í RIKB 11 0722 um allt að 15 milljarða og í RIKB 19 0226 og RIKB 25 0612 um allt að 25 milljarða króna.

Dregur úr endurgreiðsluáhættu ríkissjóðs

„Tilgangur breytinganna er að auka sveigjanleika útgefanda til að mæta betur eftirspurn markaðsaðila eftir mismunandi flokkum ríkisbréfa samfara því að draga úr endurgreiðsluáhættu ríkissjóðs. Breytingin hefur þannig ekki í för með sér auknar lántökur ríkissjóðs. Aukin útgáfa í RIKB 11 0722 á kostnað tveggja ára flokksins er til að mæta betur eftirspurn fjárfesta, þá sérstaklega erlendra fjárfesta eftir ríkisbréfum með stuttan líftíma, og aukin útgáfa á lengri flokkum óverðtryggðra ríkisbréfa er til að mæta mikilli eftirspurn frá lífeyrissjóðum," segir í tilkynningu frá Lánamálum ríkisins.