Íslenska ríkið mun þurfa að leggja endurreistum Spkef til að minnsta kosti tíu milljarða króna til að sjóðurinn geti mætt skuldbindingum sínum vegna innlána og uppfyllt lágmarkseiginfjárhlutfall starfandi fjármálafyrirtækja.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að sú tala gæti jafnvel hækkað um 1-4 milljarða króna en unnið er að lokaútreikningum. Fjármálaráðuneytið vildi ekki staðfesta eiginfjárframlagið þegar eftir því var leitað. Spkef var reistur á rústum Sparisjóðs Keflavíkur sem Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir í apríl 2010. Í kjölfarið var nýr sparisjóður, Spkef, stofnaður um starfsemina og innlán og eignir fluttar yfir í hann.

Vonir standa til að hægt verði að kynna stofnefnahagsreikning Spkef í næstu viku en vinnu við gerð hans er að ljúka.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .