Nefnd um fjármálastöðugleika áætlar að eiginfjárframlag ríkisins yrði um 160 milljarðar króna ef samningsvextir myndu standa á gengistryggðum lánum, sem Hæstiréttur dæmdi ólögleg. Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis vegna tilmæla Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um að vextir Seðlabankans skyldu gilda á gengistryggðum bílalánum. Í svarinu segir að ríkir almannahagsmunir séu í húfi.

Bent er á að 160 milljarðar króna samsvari þriðjungi ríkistekna. Miðað við eiginfjárhlutfall ríkisins í íslensku bönkunum yrði fjárframlag um 80 milljarðar króna, að því gefnu að aðrir eigendur leggi einnig fram fé. Hins vegar er ekki gengið að því vísu að svo yrði og líklegt að erlendir kröfuhafar kalli eftir endurskoðun á samningum um fjármögnun nýju bankanna.

Vegna almannahagsmuna telur Seðlabankinn að stofnanirnar hafi verið í rétti þegar tilmælin voru gefin. Dómar Hæstaréttar hafi aukið óvissu og möguleika á að ríkið þurfi að leggja fram nýtt hlutafé. Stofnunum beri lagaleg skylda að standa vörð um efnahagsstöðugleika, jafnvel þótt það kunni að stangast á við einkahagsmuni ákveðins hóps skuldara.

þá segir einnig að leiðbeinandi tilmæli Seðlabankans og FME geti ekki komið í veg fyrir alvarlegt áfall falli dómar Hæstaréttar á þann veg að nánast öll gengisbundin lán fjármálafyrirtækja verði dæmd ólögmæt en upphaflegir erlendir samningsvextir standi eigi að síður óbreyttir. Hinsvegar telur Seðlabankinn að sú niðurstaða sé ólíkleg.

Bréfið undirrita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri.