Íslenska ríkið á inni 67 milljarða króna í ógreiddar arðgreiðslur hjá stóru bönkunum þremur, Arion Banka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Þetta er niðurstaða Daníels Svavarssonar, forstöðumanns Hagfræðideildar Landsbankans.

Daníel skrifar um málið í grein á Umræðuvef Landsbankans.

Í greininni miðar Daníel við hlutafjáreign ríkisins í bönkunum þremur. Ríkið á 87% hlut í Landsbankanum, 13% hlut í Aron Banka og 5% í Íslandsbanka. Því til viðbótar á ríkið hluti í 5 sparisjóðum.

Í greininni kemur fram að beint eiginfjárframlag ríkisins við endurfjármögnun bankanna þriggja hafi numið 135 milljörðum króna auk þess sem Arion Banka og Íslandsbanka hafi verið veitt 55 milljarða króna víkjandi lán. Þetta gerir 190 milljarða króna sem sé álíka mikið og halli á ríkisútgjöldum árið 2008. Þá nam hallinn 13% af vergri landsframleiðslu.

Daníel segir að miðað við nýjustu uppgjör bankanna hafi verðmæti þess fjár sem ríkið lagði til bankanna aukist um 58 milljarða króna. Mest er aukningin hjá Landsbankanum, eða 49 milljarðar króna.

Daníel bendir jafnframt á að gert sé ráð fyrir að í lok þessa árs muni vergar skuldir ríkissjóðs nema um 1.386 milljörðum króna. Af heildarskuldunum megi áætla að um 14% megi rekja beint til kostnaðar við endurfjármögnun viðskiptabanka og sparisjóða.

Þá segir Daníel að þótt eiginfjárframlag ríkisins til bankanna og sparisjóðanna hækki skuldir ríkissjóðs til skamms tíma þá sé ekki rétt að segja það glatað fé þar sem afkoma bankanna hafi verið góð þótt ríkissjóður hafi ekki notið ávaxtanna þar sem skorður eru settar við arðgreiðslur.

Grein Daníels