Fjármlaeftirlitið (FME) tók ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja á sunnudaginn. Frá og með þeim tíma urðu allir starfsmenn Sparisjóðsins starfsmenn Landsbankans.

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær var fjallað um málið. Samþykkti bæjarstjórnin að fela Elliða Vignissyni bæjarstjóra að láta kanna lögmæti framgöngu ríkisins vegna samrunans.

Enn fremur samþykkti að bæjarstjórnin að fela „bæjarstjóra að falast tafarlaust eftir því að fengið verði hlutlægt mat á verðmæti Sparisjóðs Vestmannaeyja á þeim tímapunkti þegar hann var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann hf.  Við matið skal sérstök áhersla lögð á samanburð á lánasafninu árið 2010 eftir endurreisn sjóðsins og 29. mars 2015 þegar þvingaður samruni við Landsbankann gekk í gegn."

Í fundargerð bæjarstjórnar segir: „Íslenska ríkið var stærsti eigandinn í Sparisjóði Vestmannaeyja.  Með eignarhlutinn fór Bankasýsla ríkisins sem er á vegum ríkisins. Eftirlitsaðili með starfsemi fjármálastofnanna er Fjármálaeftirlit ríkisins, sem rekið er af íslenska ríkinu.  Heimild til mögulegs samruna var komin undir samkeppniseftirlitinu, sem er stjórnsýslustofnun rekin af íslenska ríkinu.  Mögulegur kaupandi að Sparisjóði Vestmannaeyja var Landsbankinn hf. sem er nánast í fullri eigu ríkisins.  Allt umlykjandi í málinu er því íslenska ríkið.

Í ljósi þess að ríkið er allt umlykjandi í málinu þá hlýtur að teljast mikilvægt að þessar stofnanir gæti meðalhófs við meðferð valds síns og hafi ekki með ósanngjörnum hætti og án þess að brýna nauðsyn beri til, tekið alla möguleika af öðrum eigendum Sparisjóðs Vestmannaeyja, til að vinna að lausnum sem væru hagfelldari Sparisjóðnum og byggðunum þar sem hann starfar."

Fundargerð bæjarstjórnar má lesa hér .