Kærunefnd útboðsmála telur að ríkið eigi að bjóða út farmiðakaup sín vegna ferða til og frá Íslandi. Þetta kemur fram í úrskurði nefndarinnar sem var kveðinn upp í dag.

WOW air hafði beint kæru til nefndarinnar þar sem þess var krafist að ríkið myndi bjóða út innkaup á flugfarmiðum „í gegnum miðlægt innkaupakerfi og mæti þar með útboðsskyldu allra þeirra opinberu aðila sem eru aðilar að slíku miðlægu innkaupakerfi,“ eins og segir í úrskurðinum.

Kaupa flugmiða fyrir 900 milljónir árlega

Í úrskurðinum kemur fram að hið opinbera hafi árið 2013 varið um 900 milljónum króna vegna ferðalaga erlendis. Þar kemur hins vegar ekki nákvæmlega fram hversu stór hluti af þeirri fjárhæð hafi verið varið til kaupa á flugmiðum af Icelandair, en úrskurðarnefndin taldi eftir sem áður að sýnt væri fram á að lög um opinber innkaup ættu við um samning félagsins við hið opinbera frá 29. maí 2009. „Þykir þó mega slá því föstu að heildarkaup íslenska ríkisins á því tímabili sem miða ber við séu langt umfram þær viðmiðunarfjárhæðir sem að framan greinir,“ segir í úrskurðinum.

Í málatilbúnaði sínum krafðist WOW Air þess að kærunefndin myndi láta upp álit sitt á skaðabótaskyldu hins opinbera vegna þess að kaup á flugfarmiðum hefðu ekki verið boðin út. byggði WOW Air meðal annars á því að félagið hefði orðið fyrir tekjumissi vegna þess að ríkið hefði samið við Icelandair en ekki látið fara fram útboð. Kærunefndin féllst hins vegar ekki á að kærandi hefði sýnt fram á „tjón vegna háttsemi varnaraðila" [fjármála- og efnahagsráðuneytis, innsk. blm.] og því væru ekki efni til að láta upp álit á skaðabótaskyldu hins opinbera vegna málsins.

Kærunefnd hafnaði öðrum kröfum

„Verður fallist á varakröfu kæranda [WOW air ehf. innsk. blm.] þess efnis að kærunefnd beini því til varnaraðila að framangreind innkaup verði boðin út í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup,“ segir í niðurlagi úrskurðarins. Hinu opinbera var jafnframt gert að greiða WOW air 800.000 kr. í málskostnað vegna málsins.

Þá var þess krafist að kærunefndin viðurkenndi að óheimilt væri að „veita svokallaða vildarpunkta eða aðra fjárhagslega umbun til opinberra starfsmanna í skiptum fyrir kaup hins opinbera á þjónustu.“ Að auki var farið fram á að kærunefndin myndi lýsa samning hins opinbera við Icelandair um flugfarmiðakaup ógildan, en nefndin féllst ekki á þessar kröfur WOW air.

WOW og Félag atvinnurekenda fagna úrskurðinum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið fagni úrskurðinum, enda sé niðurstaðan mjög í samræmi við málflutning FA. „Fjármálaráðuneytið hefur lýst því yfir að farmiðakaupin verði boðin út. Við fögnum því engu að síður að kærunefndin staðfesti fortakslausa skyldu ríkisins til að bjóða út þessi viðskipti og fallist jafnframt á það sjónarmið að fjármálaráðuneytið hafi brotið lögin um opinber innkaup. Ef einhver ætti að ganga á undan með góðu fordæmi í umgengni við þá löggjöf er það fjármálaráðuneytið,“ segir Ólafur í sameiginlegri tilkynningu FA og WOW air vegna málsins.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, tekur í sama streng. „Félagið mun nú vonandi fá tækifæri til að bjóða í innkaup ríkisins. Afleiðing þess mun án efa verða mikill fjárhagslegur ábati fyrir ríkissjóð og þar með fyrir okkur öll, enda er WOW Air hagkvæmasta og stundvísasta flugfélag á Íslandi,“ segir Skúli í tilkynningu.