*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 29. mars 2020 20:08

Ríkið borgar Icelandair 100 milljónir

Icelandair hefur samið um greiðslur frá stjórnvöldum fyrir flug til Boston, Lundúna og Stokkhólms næstu þrjár vikurnar.

Ritstjórn
Sigurður Ingi Jóhannsson er samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Ríkisstjórnin hefur gert samkomulag við Icelandair um reglulegar flugferðir til og frá landinu, sex ferðir að lágmarki næstu tvær vikurnar, að því er RÚV greinir frá. Mun ríkið greiða tap Icelandair vegna flugferðanna eða allt að 100 milljónir króna, en Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir hugsanlegt að samkomulagið verði framlengt.

„Þetta eru að lágmarki sex ferðir á hvern stað næstu þrjár vikurnar á meðan þessar lokanir í kringum okkur hafa verið tilgreindar,“ segir Sigurður Ingi. „Við höfum metið þetta á bilinu sjötíu milljónir plús og að hámarki hundrað milljónir. Þetta er í tiltekinn tíma á meðan á þessu varir og svo þarf að taka stöðuna aftur ef hún heldur áfram.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur flugfélagið haldið áfram að fljúga til Boston og Lundúna síðustu daga og hefur utanríkisráðuneytið auglýst flugferðirnar sérstaklega til íslenskra ríkisborgara erlendis.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að flogið verði til þessara áfangastaða auk Stokkhólms í Svíþjóðs en forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason segir tap blasa við félaginu þó þessar greiðslur komi til.

„Við verðum að sjá hvernig eftirspurnin er, hversu margir farþegar nýta sér þetta og hversu miklar tekjur eru af hverju flugi. Þetta er svo gert upp eftirá,“ segir Bogi Nils.