Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli VR gegn íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi í ársbyrjun 2015. Dómurinn féll VR í vil.  Telur dómurinn að ríkið hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna til atvinnuleysisbóta.

Tekur Hæstiréttur undir þá kröfu félagsins að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða stjórnarskrárvarinn rétt félagsmanna VR til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Taldi ríkið sig geta sparað 1.130 milljónir króna með þessum breytingum.

Í frétt á heimasíðu VR kemur fram, að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar gerir VR þá kröfu að Vinnumálastofnun flýti endurreikningi á atvinnuleysisbótum allra félagsmanna VR sem og annara einstaklinga sem breytingin náði til á þeim tíma.

Í fréttinni hvetur VR félagsmenn sína, sem breytingin tekur til að hafa samband við Vinnumálastofnun og leita réttar síns. Segir einnig að VR muni fylgja því eftir að bætur og dráttarvextir verðir rétt reiknaðir.