4,7% hlutur Glitnis í fagfjárfestasjóðnum Auði 1 hefur verið framseldur til ríkisins sem hluti af stöðugleikaframlagi, samkvæmt upplýsingum frá Glitni. Við það hefur ríkið eignast óbeinan eignarhlut í fimm fyrirtækjum.

Auður 1 á 15% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Azazo.is, sem þýðir að ríkið á nú óbeint tæplega 1% hlut í fyrirtækinu. Sjóðurinn á helmingshlut í Íslenska Gámafélaginu. Óbeinn hlutur ríkisins í Gámafélaginu er um 2,4 prósent.

Já er í 70% eigu Auðar 1, sem þýðir að íslenska ríkið á nú um 3,3% hlut í því fyrirtæki. Þá fer Auður 1 fyrir hópi sem á um 45% hlut í Ölgerðinni.

Loks á Auður 1 18,5% hlut í 365 miðlum. Óbeinn eignarhlutur íslenska ríkisins í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu er tæplega 1 prósent.

Upplýsa ekki um eignarhluti

Viðskiptablaðið beindi fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins vegna málsins. Óskað var eftir því að ráðuneytið staðfesti að 4,7% hlutur í Auði 1 væri í eigu ríkisins, en ráðuneytið varð ekki við þeirri beiðni.

„Þessa daga og vikur stendur yfir frágangur og framsal undirliggjandi eigna. Ekki verður upplýst um einstakar undirliggjandi eignir nema efni og aðstæður gefi tilefni til,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.