Hlutabréfasala Malaysia Airlines hefur verið stoppuð og mun fyrirtækið falla í ríkishendur í ljósi nýliðinna atburða. Þessu greinir The Guardian frá.

Sala á hlutabréfum Malaysia Airlines var stoppuð á mánudagsmorgni og stuttu seinna sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu um að það yrði tekið af hlutabréfamarkaði.

Þetta er fyrsta skrefið í áætlun Khazanah Nasional Bhd um endurreisn félagsins, en ríkisfjárfestarnir eiga nú þegar 69% hlut í MAS. Fyrirtækið hefur boðið 27 sen fyrir hlutabréfakaup en þegar markaðurinn lokaði á fimmtudaginn voru hlutabréf flugfélagsins metin á 24 sen.

Flugslysið í júlí og hvarf farþegaþotu Malaysia Airlines í mars hafa sett strik í reikningin, en áður en óhöppin áttu sér stað var fjárhagsstaða flugfélagsins einnig mjög slæm.

Khazanah munu standa í sparnaðaraðgerðum með aðstoð forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, til að endurreisa félagið.