Ríkisstjórn hyggst leggja fram frumvarp til laga sem veitir ráðherrum vald til að ráðstafa eigum fólks í þágu almannavarna, sé uppi neyðarástand í samfélaginu. Eyðileggist eigur fólks eða mannvirki vegna þessara ákvarðana er ríkið ekki bótaskylt. Þetta kemur fram í frumvarpi til laga sem var kynnt í ríkisstjórn í dag.

Ráðherrar munu fá heimildir til að ráðstafa eigum fólks í þágu mikilvægrar samfélagslegar starfsemi, vegna almannaheilla og til að lágmarka samfélagslegan skaða, svo sem á sviði orkumála, veitumála, fjarskiptamála, samgöngumála, fjármálaþjónustu, heilbrigðismála og umhverfismála. Þessi heimild mun þó ekki kvikna nema almannavarnir hafi lýst yfir neyðarástandi og þær fáist samþykktar af ríkisstjórn.

Starfsfólki skylt að hlýða ráðherra

Tilgangur frumvarpsins er sá að tryggja innviði samfélagsins skapist neyðarástand, til dæmis vegna eldgosa, jarðhræðinga eða vegna annars alvarlegs atburðar.

Ráðherrar munu í því skyni fá heimildir til að fyrirskipa einstaklingum og fyrirtækjum sem eiga mannvirki eða innviði sem eru taldir samfélagslega mikilvægir. Fyrirmæli geta til dæmis falist í því að „reisa varnargarða, rjúfa stíflur og vegi eða aðrar verklegar framkvæmdir, um að skammta, rjúfa eða forgangsraða afhendingu rafmagns, takmarka fjarskipti sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti o.s.frv. Einnig getur hann gefið fyrirtækjum, stofnunum og eigendum mannvirkja fyrirmæli um ráðstafanir til þess að tryggja órofinn rekstur þeirra, tiltekinna kerfa eða hluta þeirra," að því er segir í frumvarpinu.

Munu stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja sem fá slík fyrirmæli vera skyldugt til að fara að þeim. Engin refsing mun þó liggja við því að gera það ekki.

Byggir á sjónarmiðum um neyðarrétt

Hljótist tjón á eigum vegna ákvarðana eða fyrirmæla ráðherra verður ríkið ekki bótaskylt. Beinn kostnaður stofnana, fyrirtækja og eigenda mannvirkja af framkvæmd sérstakra neyðarráðstafana mun þó greiðast úr ríkissjóði.

„Það er meginregla í skaðabótarétti að við sérstakar aðstæður, t.d. náttúruhamfarir, er almennt ekki um bótaábyrgð að ræða og við slíkar aðstæður getur einnig komið upp sú staða að fórna verður minni hagsmunum fyrir meiri til þess að að lágmarka samfélagslegan skaða. Styðst slíkt við neyðarréttarsjónarmið," segir í frumvarpinu.