Íslenska ríkið þarf að endurheimta ríkisaðstoð sem það veitti fimm fyrirtækjum vegna þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, segir aðstoðina ólöglega.

Íslensk stjórnvöld gerðu ívilnunarsamninga við Bercromal, Verne, Íslenska Kísilfélagið, Thorsil og GMR Endurvinnsluna á árunum 2010 til 2012. Þetta var gert á grundvalli styrkjakerfis sem var komið á fót byggt á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

ESA rannsakaði þessa fimm samninga til að meta hvort ríkisaðstoðin væri í samræmi við EES-samninginn. Niðurstaðan er sú að Becromal og Verne hafi verið búin að ákveða fjárfestingu á Íslandi og því hafi aðstoðin við þau ekki verið að hvetja til nýfjárfestingar sem hefði annars ekki orðið. Þá komst ESA að þeirri niðurstöðu að hin þrjú fyrirtækin hafi fengið rekstraraðstoð en ekki fjárfestingaraðstoð.

“Íslandi er heimilt að veita ríkisaðstoð til að stuðla að aukinni fjárfestingu og nýjum atvinnumöguleikum á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Hins vegar er nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um að þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkri aðstoð í EES samningnum séu uppfyllt, að aðstoðin sé tilkynnt ESA og að samþykki stofnunarinnar liggi fyrir. Íslensk stjórnvöld verða nú að endurheimta þá aðstoð sem veitt var á grundvelli þeirra fimm ívilnunarsamninga sem rannsókn ESA tók til.”, segir Oda Helen Sletnes forseti ESA.