Orkubú Vestfjarða mun greiða ríkinu 46 milljónir króna í arð. Á fundi stjórnar Orkubúsins í gær var samþykkt að leggja fram tillögu um arðgreiðsluna á aðalfundi félagsins í maí. Orkubúið skilaði 230 milljóna hagnaði á síðasta ári og á ríkið allt hlutafé félagsins. Ríkið óskaði eftir arðgreiðslunni.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og er þar haft eftir Kristján Haraldssyni orkubússtjóra að staða félagsins sé það sterk að það ráði við arðgreiðsluna. Tekjunum þurfi þó að ná til baka, annað hvort frá notendum eða hagræðingu í rekstri. Ekki standi þó til að hækka verðið en þetta dragi úr framkvæmdagetu og styrk félagsins.