Hækkun lánshæfismats íslenska ríkisins hjá S&P byggir á „trúverðugum tillögum stjórnvalda sem geri kleift að afnema gjaldeyrishöft á endanum, sem hafa verið til staðar frá því í bankahruninu árið 2008," að því er segir í skýrslu matsfyrirtækisins um lánshæfiseinkunn Íslands.

S&P spáir því að flestir kröfuhafar föllnu bankanna muni fallast á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og greiða stöðugleikaframlagið. „Hinsvegar er sú hætta til staðar að einhverjir kröfuhafar fresti eða eyðileggi áform stjórnvalda með því að fara með málið fyrir dómstóla. Við teljum einnig áhættu á því að erlendir eigendur krónueigna höfði mál," segir í matsskýrslunni.

Í skýrslunni er sagt að framtíðarhorfur á Íslandi séu stöðugar og lánshæfiseinkunnin miðar við að áform stjórnvalda um afnám fjármagnshafta gangi eftir, stórslysalaust.