Slitabú Glitnis mun ekki framselja eign að fjárhæð 37 milljarðar króna til íslenskra stjórnvalda í formi reiðufjár eins og stærstu kröfuhafar slitabúsins höfðu áður samþykkt sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis. Í staðinn munu stjórnvöld fá afhent skuldabréf í íslenskum krónum til tíu ára. Greint er frá þessu í DV .

Fjárhæðin er andvirði samtölu innlána Glitnis í krónum hjá Íslandsbanka. Fram kemur í DV að breytingin á samkomulaginu hafi verið gerð að beiðni Íslandsbanka í því skyni að verja lausafjárstöðu bankans. Þannig hafi Íslandsbanki talið að of mikil áhætta væri fólgin í því fyrir lausafjárstöðu bankans ef Glitnir tæki samstundis út 37 milljarða innlán sín í krónum.

Í svari bankans til DV kemur fram að laust fé hans hafi verið 214 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs á þessu ári og með samkomulaginu sé tryggt að lausafjárstaðan verði áfram sterk.