Ríkissjóður fær rúman 21,1 milljarð króna í arð frá viðskiptabönkunum þremur, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár var gert ráð fyrir 8,1 milljarðs króna arði frá fjármálastofnunum. Þar var jafnframt gert ráð fyrir arðgreiðslu frá Seðlabankanum, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Arðurinn sem ríkið fær er því 13 milljörðum meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir þegar þau voru kynnt í fyrrahaust.

Stjórnir viðskiptabankanna hafa allar lagt fram tillögur að arðgreiðslum vegna afkomunnar í fyrra. Heildarhagnaður þeirra þriggja nam 64,5 milljörðum króna. Leggja stjórnirnar til fyrir næsta aðalfund bankanna að hluthafar fái greiddan arð upp á 40-70% af hagnaði þeirra.

Fyrr í dag greindi VB.is frá því að starfsmenn Landsbankans fái rúmar 140 milljónir króna í arð að óbreyttu. Þar var miðað við að þeir eigi 0,5% hlut í bankanum. Útlit er fyrir að það gæti breyst og hlutirnir orðið fleiri.

Ríkið á 97,7% hlut í Landsbankanum og vegur arðgreiðsla frá honum þyngst. Hún nemur tæpum 19,7 milljörðum króna miðað við tæplega 28,8 milljarða króna hagnað bankans á síðasta ári. Arðgreiðslur frá hinum bönkunum eru talsvert lægri enda á ríkið talsvert minni hlut í þeim. Af 13% hlut ríkisins í Arion banka fær það rétt rúmar 987 milljónir króna og 461 milljón í krafti 5% eignahlutar í Íslandsbanka.

Samanlagt nema því arðgreiðslurnar 21,1 milljarði króna.