Íslenska ríkið mun eignast stóra hluti í þekktum íslenskum fyrirtækjum nái slitabú föllnu bankanna að ljúka nauðasamningum í samræmi við stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Greint er frá þessu í DV .

Þar kemur fram að ríkið myndi meðal annars verða stærsti einstaki hluthafi tryggingafélagsins Sjóvár og bílafjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar auk þess að eignast allan eignarhlutinn í Lyfju. Þar að auki fengi ríkið eignarhlut í fasteignafélaginu Reitum.

Stærstu eignirnar sem framseldar yrðu kæmu frá slitabúi Glitnis sem á, í gegnum dótturfélagið SAT eignarhaldsfélag, 13,67% hlut í Sjóvá og nemur markaðsverðmæti hlutarins 2,2 milljörðum króna miðað við skráð gengi í kauphöll.

Einnig á dótturfélagið 6,25% hlut í fasteignafélaginu Reitum, sem metinn er á um þrjá milljarða króna, og 85% eignarhlut í Lyfju á meðan Glitnir fer með 15% eignarhlut. Myndi ríkið því eignast alla hluti í fyrirtækinu.