Íslenska ríkið, eigandi Íslandspósts ohf., þarf að fylgjast sérstaklega með rekstrarhorfum félagsins með það að grípa til sértækra ráðstafana innan ársins, ef þörf krefur, til að treysta rekstur Póstsins vegna tekjufalls af völdum Covid-19. Skili tekjur sér ekki sem fallið hafa niður vegna faraldursins gæti það haft áhrif á getu fyrirtækisins til að sinna alþjónustu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í eftirfylgnisskýrslu Ríkisendurskoðunar á starfsemi Póstsins sem birt var í dag. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að of margir óvissuþættir séu til staðar til að unnt sé að leggja mat á horfur um rekstur og fjárhagsstöðu á komandi misserum.

Undir lok síðasta árs fékk félagið 250 milljónir króna í varúðarframlag vegna alþjónustu en mat þess er að það þurfi 490 milljónir króna á árinu til að standa undir kostnaði sem af henni hlýst. Umræddir fjármunir voru gjaldfærðir meðal tekna í árshlutareikningi en þeir kláruðust í júlí. Fjármununum er ætlað að standa undir kostnaði við að sinna alþjónustu sem fellur á fyrirtækið ár hvert.

„Til að fyrirbyggja að fyrirtækið lendi mögulega í greiðsluerfiðleikum síðar á árinu telur Ríkisendurskoðun að endurmeta þurfi sérstaklega fjárþörf Íslandspósts ohf. vegna alþjónustubyrði á árinu 2020. Horfa verður til þess að alþjónustuskyldur lögðust á Íslandspósts ohf. samkvæmt útnefningu á sama tíma og ný póstlög tóku gildi og fyrirtækið stóð í endurskipulagningu og umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum,“ segir í skýrslunni.

Tekjufall fyrirtækisins vegna Covid-19 gæti numið allt að 500 milljónum króna því þrátt fyrir að innlend netverslun hafi tekið vaxtakipp nægi það ekki til að vega upp á móti tekjufalli af erlendum sendingum. Þá sé viðbúið að tekjur af burðargjöldum fyrir bréf muni dragast saman um allt að 300 milljónum króna á árinu.

Á síðasta ári lagði íslenska ríkið til 1,5 milljarð króna í nýtt hlutafé auk þess að ráðist var í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir. Ársverkum hefur verið fækkað um rúm 12% milli ára og launakostnaður lækkað um 5,4% þrátt fyrir hækkun launa.

„Brýnt er að stjórnvöld ákvarði sem fyrst fyrirkomulag alþjónustu til framtíðar, einkum hvað varðar ramma þess framlags sem alþjónustuveitanda ber úr ríkissjóði vegna alþjónustubyrði. Þrátt fyrir þann mikla ávinning sem leiðir af hagræðingaraðgerðum og endurskipulagningu Íslandspósts ohf. verða framtíðarhorfur um rekstur og fjárhagsstöðu fyrirtækisins háðar óvissu þar til yfirstandandi vinna á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar um fyrirkomulag alþjónustu hefur verið leidd til lykta,“ segir meðal annars í skýrslunni.