Meðal þess sem Alþingi samþykkti samhliða fjárlögum og fjáraukalögum var heimild til að ganga inn í kaup á jörðinni Fell í Suðursveit, sem á land að Jökulsárlóni. Er greint frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Morgunblaðið að með þessu væri komin heimild fyrir stjórnvöld til að neyta lögbundins forkaupsréttar.

Gengið var frá sölu á jörðinni til Fögrusteina, dótturfélags Thule Investments fyrir miðjan desember. Kaupverðið var 1.520 milljónir króna. Megn ósamstaða var meðal eigenda um nýtingu jarðarinnar og uppbyggingu.

Var farið fram á uppboð hjá sýslumanni til slita á sameign og varð niðurstaða þess að Fögrusteinar keyptu jörðina.