Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 69 milljarða króna á 3. ársfjórðungi samanborið við rúmlega 9 milljarða króna halla í fyrra. Heildarafkoman var neikvæð um 23% af tekjum. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans . Afkoma ríkissjóðs sé sýnu verri en hjá sveitarfélögunum, eða um -28% af tekjum samanborið við -4,5% hjá sveitarfélögunum. Fjárfestingar ríkissjóðs hafi tekið stökk upp á við miðað við síðasta ár á meðan fjárfestingar sveitarfélaganna hafi minnkað verulega annan ársfjórðunginn í röð.

„Afkoma bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga batnaði hlutfallslega á milli 2. og 3. ársfjórðungs í ár, en afkoma ríkissjóðs hefur versnað mun meira en sveitarfélaganna á síðustu misserum. Tekjur sveitarfélaganna jukust þannig um 6,4% milli 2. og 3. ársfjórðungs samanborið við 2,6% aukningu hjá ríkissjóði,“ segir í Hagsjánni.

Staða ríkissjóðs sé ekki alveg ný en halli hafi verið á rekstri ríkissjóðs allt frá upphafi ársins 2019. Það sama gildi raunar einnig um sveitarfélögin sem heilt yfir hafi verið rekin með halla mun lengur. Halli ríkissjóðs hafi hins vegar aukist verulega á þessu ári. Hvað ríkissjóð varðar hafi hallinn á árinu 2019 verið að meðaltali 3,7% af tekjum, en svo verið 22% á fyrsta ársfjórðungi 2020 og 36% af tekjum á öðrum og 28% á þeim þriðja. Staða ríkissjóðs hafi í raun byrjað að snúast við í upphafi ársins 2019 í tengslum við aukna erfiðleika í ferðaþjónustu og gjaldþrot Wow air.

„Verkefni og skyldur ríkis og sveitarfélaga eru mismunandi og því kemur ekki á óvart að þróun útgjaldaliða þeirra er mjög mismunandi. Hvað sveitarfélögin varðar vekur mikill samdráttur fjárfestinga á síðustu tveimur ársfjórðungum athygli, um 34% á hvorum miðað við síðasta ár. Afkoma sveitarfélaganna hefur ekki versnað jafn mikið og hjá ríkissjóði og kann hluti skýringarinnar að liggja í mikilli minnkun fjárfestingar. Launakostnaður og vaxtagjöld sveitarfélaganna hafa þá aukist mikið milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020,“ segir jafnframt í Hagsjánni.

Fjárfestingar sveitarfélaga dregist saman um 34%

Hvað ríkissjóð varðar hafi framleiðslustyrkir aukist um tæp 140% milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020. Tilfærsluútgjöld hafi einnig aukist töluvert og megi rekja nær alla aukningu þessara liða til Covid-faraldursins. Launa- og vaxtakostnaður hafi hins vegar hækkað mun minna en hjá sveitarfélögunum.

„Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga dróst fjárfesting hins opinbera saman um 6,7% milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020. Samkvæmt nýjustu tölum um fjárhag hins opinbera jókst fjárfesting ríkissjóðs um tæp 20% milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020 á meðan fjárfestingar sveitarfélaganna drógust saman um tæp 34%.

Það eru jákvæð tíðindi að loksins fari að sjást aukning í fjárfestingum ríkissjóðs nú á 3. ársfjórðungi og að sama skapi neikvætt að sjá verulega minnkun hjá sveitarfélögunum. Ríkisstjórnin tók að boða verulegt fjárfestingarátak strax vorið 2019 þegar hagkerfið fór að lenda í skakkaföllum, m.a. vegna gjaldþrots WOW-air. Þá var boðuð virk hagstjórn með beitingu fjárfestinga ríkissjóðs á sama tíma og fjárfestingar í atvinnulífinu væru að dragast saman. Þessi aukning fjárfestingar hefur hins vegar látið bíða verulega eftir sér. Nú á síðasta ársfjórðungi eru loksins merki um aukningu eftir sífellda minnkun síðustu misseri, bæði hjá ríkissjóði og sveitarfélögunum,“ segir í Hagsjá hagfræðideilar.

Sé litið á þróun síðustu ársfjórðunga megi sjá að yfirleitt hafi verið um minnkun að ræða allt frá 2. ársfjórðungi 2019. Sé litið á fjárfestingarstigið megi sjá að opinber fjárfesting á 3. ársfjórðungi í ár er svipuð og var um mitt ár í fyrra.

„Væntanlega er enn stefnt að því að framkvæma öll þau verkefni sem fjallað hefur verið um í tillögum ríkisstjórnar í fjármálaáætlun og fjárlögum. Fari hins vegar svo að bjartsýnustu spár um baráttuna gegn veirufaraldrinum gangi eftir eykst hættan á því að fjárfestingarátak ríkissjóðs verði í hámarki þegar fjárfestingar atvinnulífsins fara að aukast aftur.

Hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu hefur verið mikið á þessu ári og verður mikið á næstu árum. Það á einkum við um ríkissjóð sem ræður miklu hvað hagstjórn og þróun efnahagslífsins varðar. Það ættu því að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd,“ segir að lokum í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.