Stöðugleikaframlag Glitnis hefði orðið 13 milljörðum kr. lægra samkvæmt tillögum að nauðasamningum frá júní sl. en fyrirliggjandi nauðasamningur með framsali hlutafjár ISB Holding til íslenska ríkisins gerir ráð fyrir, miðað við áætlað bókfært virði Íslandsbanka í lok árs 2015. Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar um samkomulag stjórnvalda og slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Upphaflegar tillögur gerðu ráð fyrir að allt að 60% af bókfærðu virði Íslandsbanka yrði greitt til stöðuleikaframlaga við sölu bankans fyrir erlendan gjaldeyri. Ef söluandvirðið hefði farið umfram það þá hefði það ekki skilað sér í ríkissjóð og því er nauðasamningurinn í núverandi mynd hagstæðari fyrir ríkissjóð ef hærra verð fæst fyrir bankann. Einnig er ekki kvöð á stjórnvöldum að selja bankann fyrir ákveðinn tíma, eins og var í upphaflegum tillögum.

Ekkert sérstakt verðmat

Fram kemur að ekkert sérstakt verðmat á væntu söluvirði Íslandsbanka og Arion banka hafi farið fram. Við mat á stöðuleikaframlags er virði bankanna í lok árs 2015 áætlað út frá bókfærðu virði eigin fjár eins og það birtist í hálfsársuppgjörum þeirra 2015 og að gefnum forsendum um rekstrarþróun fram að áramótum. Hvort endanlegt söluvirði bankanna verður frábrugðið bókfærðu virði mun koma í ljós við sölu þeirra, að því er segir í svari Bjarna.

Upphæðin hærri en búist var við

Í svari fjármálaráðherra má einnig sjá upplýsingar um uppfært verðmæti stöðugleikaframlaga. Í greinargerð Seðlabanka Íslandsa frá 27. október 2015 er heildarfjárhæðin metin á 379 milljarða króna. Samkvæmt uppfærðu mati er verðmæti stöðugleikaframlaga 384,3 milljarðar króna.

Gjaldeyrisútflæðið nemur 131 milljarði króna

Heildarfjárhæð endurheimta kröfurhafa, innlendra og erlendra  af innlendum eignum slitabúa 497 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að 131 milljarði af þessari upphæð verði skipti í erlendan gjaldeyri.