Ríkissjóður hefur notið afar góðs af fjárfestingu sinni í endurreisn þriggja stærstu viðskiptabankanna; Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008. Þetta kemur fram í nýútgefinni B.sc. ritgerð Þorkels Hólms Eyjólfssonar við hagfræðideild Háskóla Íslands, en ritgerðin var m.a. unnin fyrir skýrslu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, „Drög að uppgjöri“, sem kom út í maí síðastliðnum.

Í ritgerðinni, sem miðar við árslok 2014, kemur fram að beinar tekjur ríkissjóðs af fjárfestingunni í bönkunum, þ.e. vaxta- og arðstekjur, námu 43,4 milljörðum króna, eða um 2,29% af vergri landsframleiðslu tímabilsins 2008 til 2014. Auk þess hefur bókfært virði eiginfjárhlutar ríkissjóðs vaxið samfellt frá og með árinu 2009.

Heildarafkoma fjárfestingarinnar meira en 100 milljarðar

Útlagður kostnaður ríkissjóðs vegna fjárfestingarinnar er samtals 78,2 ma.kr.. Langstærstur hluti þess kostnaðar er vaxtakostnaður vegna ríkisskuldabréfa sem notuð voru til að leggja stofnfé til bankanna.

Hins vegar námu eignir ríkissjóðs í viðskiptabönkunum 138,4 ma.kr. meira heldur en höfuðstóll ríkisskuldabréfanna sem þær voru fjármagnaðar með. Þessi mikli hagnaður af eignum í bönkunum skýrist af tæplega tvöföldun á bókfærðu virði eiginfjárhlutar ríkissjóðs á tímabilinu.

Heildarafkoma ríkissjóðs af fjárfestingu hans í endurreisn viðskiptabankanna nam því alls um 103,6 milljörðum króna við árslok 2014 að nafnvirði. Alls er afkoman jákvæð um sem nemur 4,61% af VLF tímabilsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .