Happdrætti háskólans (HHÍ) er eitt af arðbærustu fyrirtækjum í eigu ríkisins, en hagnaður félagsins er tæp 50% af tekjum. Þetta kemur fram í ársskýrslu um fyrirtæki í eigu ríkisins sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út í lok desember, en skýrslan tekur fyrir árið 2020. Einungis eitt fyrirtæki er með betra hagnaðarhlutfall, Menntasjóður námsmanna, en hagnaður félagsins er 130% af tekjum.

Arðsemi eigin fjár HHÍ nam 34% árið 2020 og 55% árið áður. Félagið hagnaðist um rúmlega milljarð árið 2020 og 1,6 milljarða árið 2019. Eigið fé félagsins nam um þrjá milljarða árið 2020, líkt og árið 2019. Í skýrslunni segir að markmið ríkisins með eignarhaldi sé að fjármagna uppbyggingu og viðhald á öflugum kennslu- og þekkingarinnviðum fyrir Háskóla Íslands, en félagið var stofnað árið 1933 og er elsta happdrætti á Íslandi.

Landsvirkjun er meðal félaga sem koma vel út úr skýrslunni þegar litið er til hagnaðarhlutfallsins, en hagnaður félagsins sem hlutfall af tekjum nam 17% árið 2020 og 22,5% árið áður. Auk þess var hagnaður Landsbankans sem hlutfall af tekjum 27,5% árið 2020 en 35% árið áður. Eiginfjárhlutfall bankans var 16,5% á árinu og reksturinn því afar heilbrigður samkvæmt skýrslunni. Hagnaður Íslandsbanka var 20% af tekjum árið 2020, en ríkið á enn 65% hlut í bankanum.

Á hinum endanum tapaði Isavia um 13 milljörðum árið 2020, en kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á rekstur félagsins.